Hvenær má lögreglan pynta fólk?

Það er alveg ótrúlegt að til sé fólk sem reyni að réttlæta nýlegar pyntinar lögreglu sem læknir og hjúkrunarkona tóku þátt í.  Að rífa konu úr fötum og troða í hana þvaglegg er auðvitað ekkert annað en gróft ofbeldi.  Þeir sem hafa fylgst með fréttum undanfarin ár hafa reyndar heyrt rökin oft áður sem þeir sem verja athæfi lögreglunnar beita.   Þeir sem réttlæta pyntingar á grunuðum hryðjuverkamennum nota svipuð rök og þeir sem réttlæta ofbeldi lögreglunnar.  Rökin eru að með pyntingunum komi þeir hugsanlega í veg fyrir glæpi  Mér fannst það mjög dapurlegur málfluttningar hjá sýslumanninum á Selfoss að gefa í skyn að með því að beita þessari konu ofbeldi hafi þeir hugsanlega komð í veg fyrir stórslys.  Dapurlegur málfluttningur sem réttlætir alls ekki athæfið.

Það er einnig sorglegur málfluttningar að ofbeldið sé réttlætanlegt ef með því sparist fjármunir.  Sýslumaðurinn á Selfossi hefur fullyrt að reynt hafi verið að fá konuna til samvinnu í  a.m.k. eina klukkustund áður en til gripið var til ofbeldis.  Ég get ómögulega fallist á þau rök að ofbeldi lögreglu sé réttlætanlegt ef við það sparist tími eða fjármunir. 

Áhrifamenn innan bandaríska hersins komust að þeirri niðurstöðu að það þjónaði rannsóknarhagsmunum að rífa fólk úr fötunum og pynta til að fá fram upplýsingar.  Tilgangurin helgaði meðalið.  Lögreglumenn á Selfossi komust að þeirri niðurstöðu að rannsóknarhagsmunur krefðust þess að þeir niðurlægðu og beittu konu miklu ofbeldi.  Bæði lögmenn og alþingismenn hafa lýst yfir stuðningi við athæfi lögreglunnar.  Ég mun aldrei kjósa stjórnmálamann sem lýsir yfir stuðningi við slíkt ofbeldi.   Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lögreglumenn eru sakaðir um að beita ofbeldi. Fyrir nokkrum mánuðum voru lögreglumenn (af báðum kynum) í Reykjavík ásakaðir um að rífa unga stúlku úr öllum fötum  inn í fangaklefa til að leita að dópi.  Þar var stúlkan svo skilin nakin eftir.  Sú stúlka átti það sameiginlegt með hinu síðara fórnarlambi að  vera sökuð um ókurteisi.  Að mínu mati hefði sú saga átt að leiða til úttektar á starfsvenjum lögreglunnar.  Vonandi leiðir þetta atvik til þess að  reglur verði settar um hvenær og hvernig ásættanlegt sé að lögreglan pynti eða niðurlægi fólk. Það er með ólíkingum að fólki finnist það í lagi að konur séu sviftar klæðum í návist karlkyns lögregluþjóna.

Auðvitað dettur engum í hug að  þeir sem mótmæla pyntingu bandaríkjahers séu á einhvern hátt fylgjandi hryðjuverkum. Sumir Íslendingar virðist hins vegar túlka orð þeirra sem fordæma ofbeldi lögreglunnar þannig að viðkomandi sé að  lýsa yfir stuðningi við ölvunarakstur. Slíkar aðdróttanir eru ekki svaraverðar.


Afskipti og fordómar stjórnmálamanna

Á TYLLIDÖGUM hreykja Íslendingar sér stundum af því að vera framsækin og víðsýn þjóð. Fátt virðist samt styðja þá ímynd. Ekki eru nema örfáir áratugir síðan íslensk stjórnvöld fóru þess á leit við þau bandarísku að blökkumenn í hernum yrðu ekki sendir til Íslands. Ég þekki einn fyrrverandi hermann sem er ennþá mjög sár út í íslensk stjórnvöld fyrir afskipti þeirra sem leiddu til þess að hann var sendur til Tyrklands á meðan félagar hans með annan húðlit fóru til Íslands.

Þetta hlýtur að teljast ærið ljótur blettur á íslenskri stjórnmálasögu. Flest okkar telja vonandi að svona afskipti íslenskra stjórnvalda séu svo yfirgengilega fordómafull og viðurstyggileg að þau væru óhugsandi í dag. Á sínum tíma hefur hins vegar ef til vill ríkt þverpólitísk samstaða um að vinna gegn komu blökkumanna í ameríska hernum til Íslands.

Nýlega virðast allir þingmenn hins háa Alþingis hafa komist að þeirri niðurstöðu að úthrópa bæri og fordæma ákveðið fólk sem skipulagði skemmti- og ráðstefnuferð til Íslands. Um þetta ríkti þverpólitísk samstaða. Í þessu tilfelli var um að ræða einstaklinga sem starfa við grein sem þingmönnum er ekki velþóknanleg. Á meðan umrætt fólk lýsti Íslendingum sem framsýnni þjóð og talaði almennt vel um Ísland og Íslendinga á vefsíðu sinni kepptust sumir Íslendingar við að rakka þennan hóp niður. Einstaklingar sem vilja láta taka sig alvarlega komu fram í fjölmiðlum og ásökuðu hópinn um alveg hroðalega glæpi, svo sem barnaklám og mansal. Ekkert bendir til þess að fólkið hafi nokkuð sér til saka unnið. Það hefur ekki brotið nein íslensk lög né lög í heimalandi sínu svo vitað sé. Íslensk lög ná að sjálfsögðu ekki yfir það hvað útlendingar gera í sínu heimalandi. Ekki er heldur neitt sem bendir til þess að þetta fólk hafi haft ásetning um að brjóta íslensk lög. Það hlýtur auðvitað að vera refsivert að bera falskar og svona svívirðilegar sakir upp á fólk.

Jafnvel var rætt um hvort hægt væri að svipta þetta fólk frelsinu við komu til landsins og senda það svo úr landi. Frelsissvipting er mjög alvarlegur hlutur. Sorglega mörgum Íslendingum finnst í lagi að fótumtroða mannréttindi fólks ef atvinna þess er þeim ekki að skapi.

Af dagskrá "ráðstefnunnar" er ljóst að fyrst og fremst var um skemmtiferð að ræða. Fólkið ætlaði sér meðal annars að fara á skíði, skoða Þingvöll, Gullfoss, Geysi og fara í Bláa Lónið. Skipulögð dagskrá var fyrir alla dagana. Ekki er hægt að sjá að orðspor Íslands hefði boðið hnekki við slíka heimsókn. Veit einhver í hvaða skemmtiferð þessi hópur fór fyrir ári?

Að detta það í hug að klámiðnaður myndi festa rætur á Íslandi í kjölfar þessarar heimsóknar er auðvitað fáránlegt. Sú túlkun að þjóðin hafi hafnað klámi með því að koma í veg fyrir komu þessa hóps er einnig út í hött. Það er alveg jafn mikið um klám á Íslandi eftir að þessum hóp var neitað um gistingu á Hótel Sögu eftir þrýsting frá stjórnmálahreyfingum. Barátta gegn klámi, hvernig sem það er skilgreint, sem felst einungis í að reyna að hindra að fólk tengt einhverjum vefsíðum komi til íslands í ráðstefnu- og skemmtiferð er ákaflega yfirborðskennd.

Stutt er síðan ein frægasta klámmyndastjarna veraldar kom til Íslands og hélt fyrirlestur fyrir fullum sal í Háskólabíói. Klámmyndastjarnan Ron Jeremy fékk góðar móttökur á Íslandi og fáir fordæmdu heimsókn hans. Ef til vill hafði hann vit á að koma ekki stuttu fyrir kosningar.

Hvort einstaklingar eru hlynntir því að meina ákveðnum hóp að koma til Íslands, neita þeim um gistingu eða svipta þá frelsinu við komuna til landsins hefur ekkert að gera með það hvort þeir séu hrifnir af klámi eða ekki. Þetta er auðvitað spurning hvort við viljum vera þjóð sem virðir einstaklinga og almenn mannréttindi. Viljum við virkilega að geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna ráði því hverjir fái að koma til Íslands eða viljum við að með lögum skuli land byggja? Að mínu mati er það hræðilegt afturhvarf til fortíðar þegar stjórnmálamenn reyna að hafa áhrif á hverjir koma til landsins og hverjir ekki af mjög vafasömum ástæðum. Það er verulegt áhyggjuefni að háværir þrýstihópar geti fengið stjórnmálamenn til að skipta sér af því hvernig ferðamenn koma til Íslands. Það er ekki að undra að traust almennings á stjórnmálamönnum sé í sögulegu lágmarki. Hentistefnur byggðar á múgæsingi stuttu fyrir kosningar ber að fordæma.

Höfundur er doktorsnemi í hagfræði við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband